Viðskipti

Seldu bækur með bensíninu
Gömul mynd þar sem Halli er ásamt starfsfólki í sjoppunni.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 14. október 2023 kl. 06:05

Seldu bækur með bensíninu

Eitt helsta verkefni Olís áður fyrr var að kynda húsin í Grindavík. Saga Olís í Grindavík nær aftur til 1941.

Miklar framkvæmdir standa yfir þessa dagana þar sem Olís er með bækistöðvar sínar en saga fyrirtækisins í Grindavík nær allt til ársins 1941. Fyrstu árin var bensínið og olían aðskilin en frá og með áramótunum 1989/1990, hefur einn aðili séð um báða þessa orkugjafa auk þess að þjónusta það sem þarf að þjónusta. Það stefndi allt í glæsilega uppbyggingu í Grindavík en hrunið árið 2008 kom í veg fyrir það.

Jón Gauti Dagbjartsson hefur verið útibússtjóri Olís undanfarin ár. „Ég hef verið í þessu starfi síðan 2010 en áður en hrunið skall á var Olís búið að ákveða uppbyggingu á horni Hafnargötu og Ránargötu, þar sem gamla hafnarvigtin var og VIGT er núna. Þegar ég hóf störf var starfsstöð mín í Seljabót en þegar Vísir hf. keypti það húsnæði árið 2016, flutti ég mig hingað þar sem bensínafgreiðslan hefur verið allt frá árinu 1967. Þegar ég byrjaði var sjoppa hér líka en henni var lokað árið 2013 ef ég man rétt og síðan þá hefur bara verið sjálfsali fyrir eldsneytið og það breyttist í ÓB. Það var einfaldlega lokað fyrir gluggana með stórum ÓB auglýsingaskiltum og húsnæðið hýsti tölvurnar fyrir sjálfsalana en svo þurfti að flytja hingað aftur inn eins og áður sagði. Það er búið að vera lengi vitað að það þyrfti að taka húsnæðið í gegn, ég er ánægður með að framkvæmdir séu hafnar. Þetta verður allt annað, öll vinnuaðstaða fyrir mig betri og allt útlit á búðinni tekið í gegn. Ég fæ gám að aftan svo lageraðstaðan verður sömuleiðis miklu betri. Ég hlakka til þegar framkvæmdum lýkur, vonandi ekki síðar en um miðjan nóvember.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Jón Gauti Dagbjartsson, útibússtjóri Olís, við afgreiðsluborðið.

Miklar framkvæmdir standa yfir í bækistöðvum Olís í Grindavík.

Hús kynt með olíu til 1976

Olís stofnaði umboð í Grindavík árið 1941 og fyrsti umboðsaðilinn var Hraðfrystihús Grindavíkur. Skrifstofustjóri þar var Guðbrandur Eiríksson en hann var einmitt frændi Sigmars Eðvardssonar, sem tók við rekstri olíuhluta Olís í Grindavík um áramótin 1989/1990. „Áður en ég tók til starfa hjá Olís, hafði alltaf verið um umboðssölu að ræða, þá fékk umboðsaðilinn x margar krónur fyrir hvern seldan olíu- eða bensínlítra auk þess að selja aðrar vörur í umboðssölu og vera með almenna sjoppuverslun. Ég tók við af Sæunni Kristjánsdóttur, ekkju Sverris Jóhannssonar, sem hafði verið umboðsmaður Olís frá árinu 1971. Ég man þann tíma þegar Sverrir rúntaði um götur Grindavíkur og fyllti á olíutankana við heimilin en húsin í Grindavík voru upphituð með olíukyndingu til ársins 1976 þegar Hitaveita Suðurnesja, sem í dag heitir HS orka, tók við húsakyndingunni. Það var svo um áramótin ‘96/’97 sem ég tók líka við bensínsjoppunni af Halldóri Ingvasyni en fram að þeim tíma hafði sitthvor aðilinn séð um olíuhlutann annars vegar og bensínhlutann hinsvegar,“ sagði Sigmar.

Bókabúð og bensínsjoppa á sama staðanum

Sigmar stýrði Olís í Grindavík til áramóta 2005/2006 þegar Heiðar Hrafn Eiríksson tók við og stýrði hann málum til 2008, Agnar Smári Agnarsson var svo við stjórnvölinn til 2010 þegar núverandi útibússtjóri, Jón Gauti, tók við lyklavöldum. Halldór Ingvason rifjaði upp hvernig kom til að hann tók við rekstri bensínsjoppunnar á sínum tíma. „Ég tók við af Dúdda í Ási eins og hann var kallaður, hann hét Karl Karlsson og setti upp bensínsjoppu á milli Ásgarðs og Áss þar sem hann bjó. [Fyrir þá sem ekki vita, er Hjólbarðaverkstæði Grindavíkur hinum megin við þessi hús neðarlega á Víkurbraut]. Ég þori ekki að fullyrða hvenær Dúddi byrjaði á þessu, það var allavega áður en ég sneri til baka til Grindavíkur árið 1962 til að kenna við grunnskólann. Árið 1963 sótti ég ásamt Helgu konu minni um bóksöluleyfi og hófum við rekstur í gamla læknishúsinu þar sem Sigvaldi Kaldalóns bjó áður. Því miður þurftum við að yfirgefa það ágæta hús eftir eitt ár. Dúddi var þá búinn að loka bensínsjoppunni og gátum við fengið húsnæðið á leigu sem við og gerðum. Dúddi spurði mig hvort ég vildi ekki taka við bensínsölunni líka og sagði mér að hafa samband við Olís og við fengum bensínsöluumboðið. Nokkru seinna tók Olís ákvörðun um að byggja bensínsjoppu þar sem núverandi húsnæði er við Hafnargötuna og var sú bygging tilbúin að mig minnir árið 1967. Við fengum leyfi hjá Olís til að reka bókabúðina í húsnæðinu og vorum líka með sjoppu ásamt olíuvörum. Ég man að það var þröngt á þingi því húsnæðið var minna en það er núna, það var stækkað einhverjum árum síðar. Svona rákum við  þetta þar til verslunarmiðstöðin opnaði, þá fluttum við bókabúðina þangað en rákum áfram bensínsjoppuna út árið 1996, þegar Simmi tók við,“ sagði Halldór.